Tilefnið að stofnun þessarar heimasíðu eru verðtryggð lán og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3546/2020, birtur þann 22. febrúar 2021. Málaferlin snúast um hvort að verðtryggð lán séu reiknuð út í samræmi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 4. grein reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 sem lán af þessu tagi heyra undir og hvaða undanþágur hafa verið gefnar frá lögunum og reglunum.
Viðurkennt er af Seðlabanka Íslands og Íbúðalánasjóði að lánin eru ekki reiknuð út í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og reglur Seðlabanka Íslands nr. 492/2001. Skýringin sem allir þrír dómstólar landsins og þeir sem lána þessi lán hafa gefið er að það „skipti ekki máli“ hvernig þessi lán eru reiknuð út eða að útreikniaðferðin sem notuð er sé „jafngild“ og að fara eftir reglunum.
Skiptir engu þó að það standi hvergi að leyfilegt sé að reikna lánin út eins og gert er í dag og hvergi standi að það sé „jafngild“ eða að það „skipti ekki máli“ að nota alltaf grunnvísitölu skuldabréfa út gildistíma þeirra.
Jafnframt hefur komið fram skýringar eins og að það sé „þægilegra“ fyrir þann sem lánar þessi lán að reikna lánin út eins og gert er.
Með dómi sínum í Landsrétti og frávísun Hæstaréttar, taka bæði Lands- og Hæstiréttur fullum hálsi undir fullyrðingarnar sem koma fram í dómsorði Héraðsdóms í málinu mínu og ég nefni hér fyrir ofan!
Fullyrða jafnframt að markmiðið sé að „tryggja eigi kaupmátt endurgreiðslna“ eða að „tryggja eigi höfuðstólinn að fullu“ og að „verðbæta eigi verðbættan höfuðstól”, þó að hvergi sé minnst á í lögum eða reglum á þessar fullyrðingar eða að sé minnst orði á í skýringum með hver tilgangur verðtryggingar sé.
Eftir stendur einnig spurningin! Voru Lands- og Hæstiréttur með úrskurði sínum og frávísun að opna fyrir að öll þau lög sem búið er að fella á brott með nýjum lögum, fram á þennan dag séu endurvakin! Það er að löngu brottfallin lög eigi að gilda samhliða nýjum lögum sem eiga að leysa þau gömlu af hólmi? Og til hvers er þá verið að breyta eldri lögum eða fella þau á brott ef brottfallin lög gilda þó að búið sé að fella þau á brott með nýjum lögum?
Hvað sem öllum afsökunum líður hjá þeim sem lána þessi lán, þá hef ég reiknað lánin mín út eftir orðalagi reglnanna sem gilda og niðurstaðan er sú að það skiptir víst máli hvernig þessi lán eru reiknuð út.
Það er heldur ekki „jafngilt“ að nota alltaf grunnvísitölu skuldabréfa við útreikningana út lánstíma þeirra! Því að grunnvísitalan hækkar stöðu verðbótanna eftir því sem líður á lánstíma lánanna og vægi grunnvísitölunnar vegur þyngra eftir því sem hún eldist, sem veldur því að lántaki greiðir alltaf hærri vexti af verðbótum og afborgun verðbóta en honum ber.
Fyrst að það „skiptir ekki máli“ eða er „jafngilt“ að fara ekki eftir lögum og reglum við útreikningana á verðtryggðum lánum, hvers vegna er þá ekki einfaldlega farið eftir þeim lögum og reglum sem gilda yfir þessi lán?
Hvað er verið að fela fyrir almenningi?
Tilgangurinn með Síðunni
Síðan er stofnuð með það að markmiði að fjalla um upphaf og ferli málsins sem leiddi til málshöfðunar gegn Íslenska ríkinu og dómsniðurstöðurnar, sem og framhald málsins og verðtryggð neytendalán á Íslandi almennt.
Hugmyndin er einnig að fjalla um verðtrygginguna út frá sögulegum og lagalegum staðreyndum og reynt verður einnig að byggja á reynslu neytenda af þessum lánum.
Fyrst og fremst verður fjallað um verðtryggð húsnæðis- og námslán en svo er aldrei að vita hvernig efnistökin þróast og hvaða mál bætast við, af nógu er að taka af óréttlætinu sem viðgengst í fjármálum heimilanna hér á landi.
Ég legg fram útreikningana sem ég hef notað til að sanna mitt mál og lesendur geta þá skoðað hvernig þeirra lán eru reiknuð út. Ég mun líka fjalla um samræmdu neysluvísitöluna eins og hún er framsett með húsnæðisliðnum og hugleiðingar mínar um hvort hún standist lög.
Um Aðganginn
Síðan verður læst fyrir öllum þeim sem ekki hafa tilskilinn aðgang og er opin þeim sem skrá sig sérstaklega með því að stofna svæði fyri sig til að fá aðgang að síðunni. Aðgangur að síðunni er ókeypis en stytkja má síðuna með frjálsum framlögum. Nánari upplýsingar er að finna hér:
Síðan er ekki áskriftasíða og tilgangurinn með síðunni er ekki hagnaðardrifinn. Einungis verður krafist að notendur síðunnar skrái sig inn til að lesa efnið. Síðunni er ekki ætlað að standa í neinni annarri starfsemi nema að fjalla á málefnalegan og upplýsandi hátt um verðtryggingu og allar tegundir verðtryggðra lána á Íslandi, hvort sem það eru neytendalán eða námslán og önnur mál sem varða hagsmuni og fjármál heimilanna.
Það er líka ærið tilefni til að fjalla um spillinguna og óréttlætið sem í kringum þetta mikilvæga mál sem snýr að heimilunum í landinu. Gestir síðunnar eru beðnir að sýna hvor öðrum virðingu og trúnað.